Ríkisstjórn Bandaríkjanna segir útlit fyrir að fjárútlát hins opinbera vegna neyðarbjörgunarsjóðs ríksins fyrir fyrirtæki í kröggum (Tarp-sjóðurinn), verði helmingi lægri en gert var ráð fyrir.
Tarp-sjóðurinn var settur á laggirnar í stjórnartíð George W. Bush, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, í október í fyrra eftir mikið karp og kaupir hann eignir fyrirtækja í skiptum fyrir eiginfjárframlag fyrir allt að sjö hundruð milljarða dala.
Fyrirtæki sem sóttu sér fé í sjóðinn hafa greitt til baka 71 milljarð dala. Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í síðustu viku mögulegt 175 milljarðar dala verði komnar til baka í lok næsta árs. Gangi það eftir kunna heildarútgjöld stjórnvalda nema 341 milljarði dala, eða rétt rúmum helmingi af áætluðum útgjöldum.
Bloomberg-fréttastofan segir nú deilt um það á Bandaríkjaþingi hvað skuli gera við féð sem standi út af fjárhagsáætlu. Bandarískir öldungadeildarþingmenn úr röðum Repúplikana segja stjórnvöld hafa gert nóg til að styðja við fjármálafyrirtækin. Nú sé röðin komin að því að vinna á fjárlagahallanum, sem hefur aldrei verið meiri.
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sagði í síðustu viku hluta sjóðsins kunna að verða nýttan til að styðja við lítil fyrirtæki. - jab