Lífið

Skemmtileg mynd um krónuna í bígerð

Atli og Garðar ætla að útskýra flókin hugtök á skemmtilegan hátt.
Atli og Garðar ætla að útskýra flókin hugtök á skemmtilegan hátt.

„Við ætlum að forvitnast um þetta fyrirbæri, íslensku krónuna. Þetta er minnsti gjaldmiðill í heimi. Disney-dollarinn er stærri en íslenska krónan," segir leikstjórinn og hagfræðingurinn Garðar Stefánsson.

Garðar vinnur að heimildarmynd um íslensku krónuna ásamt Atla Bollasyni, bókmenntafræðingi og hljómborðsleikara Sprengjuhallarinnar. Félagarnir fengu á dögunum styrk frá Kvikmyndasjóði Íslands og stefna á að klára handritið í febrúar á næsta ári og hefja tökur í kjölfarið.

„Hugmyndin er að fjalla um hagfræðina á bakvið íslensku krónuna og gjaldmiðla, peningastefnu og stýrivexti og allt það - allt sem er í fréttunum allan sólarhringinn - á skemmtilegan og aðgengilegan hátt," segir Garðar.

„Þetta er nokkurs konar Jamie Oliver-pæling. Hann segir í þáttunum sínum að allir geti eldað flóknar máltíðir. Við ætlum að segja að allir geti skilið hagfræði. Það er gert með þeim hætti að einfalda dæmið aðeins, útskýra hugtökin og nota skemmtilega grafík."

Seðlabankinn lækkaði stýrivexti sína í gær úr 11% niður 10%. Garðar og Atli hyggjast útskýra hvaða þýðingu slík lækkun hefur fyrir fólkið í landinu. „Hvað gerir Seðlabankinn? Stýrivextir er skammtímalán sem eru lánuð til viðskiptabankanna. Þá sýnum við myndrænt hvernig þetta ferli á sér stað og hvernig 1% stýrivaxtalækkun skilar sér í veski hins almenna borgara. Hvaða áhrif það hefur á launin þín," útskýrir Garðar fyrir blaðamanni, sem skilur hvorki upp né niður og bíður því spenntur eftir myndinni, sem þeir stefna á að frumsýna næsta haust. - afb








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.