Sport

Þjálfari Caster Semenya er hættur í mótmælaskyni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Caster Semenya með HM-gullið sitt.
Caster Semenya með HM-gullið sitt. Mynd/AFP

Wilfred Daniels, þjálfari Suður-Afríska hlauparans og heimsmeistarans í 800 metra hlaupi kvenna, Caster Semenya, hefur sagt starfi sínu lausi í mótmælaskyni við það hvernig suður-afríska frjálsíþróttasambandið plataði Caster Semenya til þess að gangast undir kynjapróf fyrir HM.

Wilfred Daniels segir að hin 18 ára gamla Caster Semenya hafi tekið vel í það að fara í próf fyrir HM þar sem að hún hélt hún væri að fara í venjulegt lyfjapróf. Alþjóðafrjálsíþróttasambandið tilkynnti um kynjaprófið sama dag og Semenya tryggði sér heimsmeistaratitilinn.

„Það er ekki ásættanlegt að Suður-Afríska frjálsíþróttasambandið geti platað íþróttamenn sína svona að láta þá halda það að þeir séu að mæta í venjulegt lyfjapróf þegar í raun er verið að láta þá gangast undir kynjapróf," sagði Daniels sem var einnig landsliðsþjálfari Suður-Afríku í frjálsum.

Daniels segir þetta mál vera hreina móðgun við Semenya. Alþjóðafrjálsíþróttasambandið hefur ekki sakað Semenya um að svindla en gaf það þó út að hún gæti verið sjaldgæft tilfelli sem gæfi henni augljóst forskot í keppni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×