Lífið

Meistari gamanleiksins

Samkvæmt Entertainment Weekly er Williams einn af 25 fyndnustu leikurum allra tíma. Hæfileikar hans eru þó ekkert síðri á dramatíska sviðinu þar sem ferill hans hefur náð hæstu hæðum. Þorvaldur Davíð Kristjánsson er einn af þeim sem hafa notið góðs af rómaðri góðmennsku leikarans en Williams styrkir íslenska leikarann til náms í Julliard-skólanum í New York.
Samkvæmt Entertainment Weekly er Williams einn af 25 fyndnustu leikurum allra tíma. Hæfileikar hans eru þó ekkert síðri á dramatíska sviðinu þar sem ferill hans hefur náð hæstu hæðum. Þorvaldur Davíð Kristjánsson er einn af þeim sem hafa notið góðs af rómaðri góðmennsku leikarans en Williams styrkir íslenska leikarann til náms í Julliard-skólanum í New York.

Bandaríski leikarinn Robin Williams hefur á undanförnum þremur áratugum heillað áhorfendur með einstökum leik. Honum hefur tekist það sem fáir grínistar hafa getað leikið eftir: að sameina dramatík og húmor í eina sæng.

Williams leikur aðalhlutverkið í Disney-kvikmyndinni Old Dogs á móti John Travolta sem frumsýnd verður í kvikmyndahúsum borgarinnar um helgina. Williams fær nú sennilega enga Óskarstilnefningu fyrir leik sinn eða húrrahróp frá gagnrýnendum enda þykir Old Dogs ekkert sérstaklega merkilegur pappír ef marka má dóma á kvikmyndavefsíðunni imdb.com. Myndin fjallar um tvo viðskiptafélaga sem óvænt þurfa að taka að sér tvíbura með ófyrirséðum afleiðingum.

Robin Williams er eiginlega Íslendingavinur. Því hann styrkir íslenska leikarann Þorvald Davíð Kristjánsson til náms í Julliard-háskólanum í New York. Þar lærði Williams fræði sín ásamt Ofurmenninu Christopher Reeve. Þeir tveir héldu ákaflega traustri og góðri vináttu allt til dauðadags Reeves. Ferill Williams hófst fyrir alvöru í sjónvarpsþáttunum Happy Days. Sagan segir að framleiðandi þáttanna, Garry Marshall, hafi beðið Williams um að setjast niður enda hafði hann verið á iði alla áheyrendaprufuna. Williams stóð á haus ofan á stólnum og Marshall réð hann á staðnum. „Hann var eina geimveran sem mætti í inntökuprófið,“ sagði Marshall seinna meir um þessa stund með Williams.

Ferillinn á hvíta tjaldinu hófst með titilhlutverkinu í Stjána bláa en hann vakti fyrst athygli fyrir frammistöðu sína í kvikmyndinni The World According to Garp sem byggð er á samnefndri skáldsögu Johns Irving. Williams fékk þó ekki Óskarstilnefningu eins og meðleikarar hans, John Lithgow og Glenn Close, og þurfti að bíða í fimm ár eftir henni. Williams sló þá í gegn með stórkostlegri frammistöðu í Good Morning Vietnam. Túlkun hans á útvarpsmanninum Adrian Cronauer var stórfengleg og þar sýndi Williams hvers hann er megnugur, að ná því í nánast einni og sömu tökunni að fá áhorfendur til að veltast um af hlátri en um leið fyllast samúð og samkennd. Williams er nefnilega ekkert síður góður þegar hann tekur að sér dramatísk hlutverk í kvikmyndum á borð við Fisher King og Good Will Hunting en þegar hann bregður sér í hlutverk trúðsins.

Einkalíf Williams hefur síður en svo verið dans á rósum, hann er tvíkvæntur og glímdi við kókaínfíkn á níunda áratug síðustu aldar.

„Kókaín er leið Guðs til að segja þér að þú sért að græða of mikið af peningum,“ sagði Williams eitt sinn. Hann skráði sig í meðferð við misnotkun áfengis fyrir þremur árum og hefur haldið sér frá flöskunni síðan þá. fgg@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.