Íslenski boltinn

Mikilvægur leikur á Akureyri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björk Gunnarsdóttir, leikmaður Stjörnunnar.
Mynd/stefán
Björk Gunnarsdóttir, leikmaður Stjörnunnar. Mynd/stefán

Í kvöld fer fram heil umferð í Pepsi-deild kvenna og ríkir hörkuspenna á toppi deildarinnar.

Þrjú lið - Valur, Breiðablik og Stjarnan - eru efst og jöfn á toppnum og Þór/KA er ekki nema þremur stigum á eftir þeim.

Tvö þeirra mætast innbyrðis í kvöld er Þór/KA tekur á móti Stjörnunni á Akureyri. Valur mætir Fylki og Breiðablik tekur á móti KR.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari spáði í spilin fyrir Fréttablaðið.

„Það er mikið undir í leikjum kvöldsins en ég held þó enn að mikilvægasti leikur sumarsins verði viðureign Stjörnunnar og Vals í byrjun september," sagði Sigurður Ragnar.

„Til þess að sá leikur verði úrslitaleikur verður Stjarnan því helst að vinna á Akureyri því ég á ekki von á því að Valur lendi í vandræðum með Fylki í kvöld. Þær munu mæta ákveðnar til leiks í kvöld og vinna."

Hann á þó von á hörkuleik á Akureyri. „Þetta er gríðarlega sterkur heimavöllur og Þór/KA hefur mikið sjálfstraust. Mér finnst það vera lið sem getur unnið alla andstæðinga á góðum degi. Þær fóru að vísu hægt af stað í mótinu í vor en hafa síðan verið á miklu skriði."

Sigurður Ragnar telur að Blikar gætu lent í vandræðum í kvöld.

„KR hefur spilað vel að undanförnu og unnið þrjá leiki í röð. Breiðablik hefur að sama skapi verið að veikjast. Harpa Þorsteinsdóttir er fótbrotin og Sandra Sif Magnúsdóttir er farin til útlanda.

Ég spáði því þó fyrir mót að Breiðablik yrði meistari og ég er ekki reiðubúinn að breyta spánni enn. Valur hefur þó enn mótið í sínum höndum en hin liðin hafa þó sýnt að það er vel hægt að sigra Val."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×