Innlent

Vonast til að smíði nýrrar Þjórsárbrúar hefjist í haust

Þjórsárbrú ofan við Urriðafoss, nýja brúin verður við Árnes.
Þjórsárbrú ofan við Urriðafoss, nýja brúin verður við Árnes. Mynd/ Anton

Ný stórbrú yfir Þjórsá við Árnes mun ásamt Hvítárbrú, Landeyjahöfn og Lyngdalsheiðarvegi skapar nýtt samgöngumynstur um mestu landbúnaðarhéruð Íslands og styrkja þau verulega, að mati ráðamanna á svæðinu. Þeir vonast til að smíði nýju Þjórsárbrúarinnar hefjist í haust.

Nýja brúin verður beint suðvestan frá félagsheimilinu Árnesi. Þaðan verða aðeins sjö kílómetrar frá Árnesi yfir í Rangárvallasýslu, þegar brúin kemur, en nú þarf að aka þrjátíu til fjörutíu kílómetra til að komast þaðan yfir í sýsluna handan ár. Brúarsmíðin mun þó vart hefjast fyrr en grænt ljós er komið á nýjar Þjórsárvirkjanir.

Gunnar Örn Marteinsson, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps, segir að brúin sé nauðsynleg vegna virkjanaframkvæmdanna og vonast hann til að unnt verði að byrja fljótlega, í haust eða vetur.

Nýlega er hafin smíði nýrrar Hvítárbrúar milli Flúða og Aratungu og er stefnt að því hún verði opnuð umferð eftir rúmt ár. Í uppsveitum Suðurlands horfa menn á þessar framkvæmdir í samhengi.

Margeir Ingólfsson, oddviti Bláskógabyggðar, segir að með þeim myndist þvertenging milli Reykjavíkur og Rangárvallasýslu, um Lyngdalsheiðarveg, Reykjaveg, Hvítárbrú og áfram yfir í Rangárvallasýslu um Þjórsárbrúna. Þetta muni styrkja þessi svæði öll mjög mikið.

Suðurland er ekki aðeins helsta landbúnaðarhéraðið heldur eru uppsveitirnar eitt vinsælasta ferðamannasvæði landins og þar er þéttbýlasta sumarhúsabyggðin. Menn sjá mikil tækifæri skapast með nýjum samgöngumannvirkjum.

Gunnar Örn, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps, segir að allt muni þetta hjálpa verulega í allri uppbyggingu, sérstaklega í sambandi við ferðamennsku og í íbúaþróun. Ferjan til Vestmannaeyja, Gjábakkavegurinn og nýju brýrnar yfir Hvítá og Þjórsá skapi allt aðra sýn á hlutina hvað samgöngur varðar.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×