Körfubolti

Griffin byrjar vel með Clippers: Sjö stig á fyrstu 75 sekúndunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Blake Griffin er efni í stjörnuleikmann í NBA-deildinni.
Blake Griffin er efni í stjörnuleikmann í NBA-deildinni. Mynd/AFP

Blake Griffin var valinn fyrstur af Los Angeles Clippers í nýliðavali NBA-deildarinnar og í fyrsta leik sínum í sumardeildinni sýndi hann af hverju. Blake Griffin skoraði 27 stig og tók 12 fráköst í 93-82 sigri Clippers á nágrönnum sínum í Los Angeles Lakers.

Griffin hóf leikinn af miklum krafti og var kominn með sjö stig eftir aðeins 75 sekúndna leik. Hann hitti úr öllum sex skotum sínum í fyrri hálfleik og hitti alls úr 11 af 15 skotum sínum á þeim 29 mínútum sem hann spilaði.

„Núna er ég bara í sömu stöðu og allir aðrir leikmenn í sumardeildinni þar sem ég er að reyna að sína þjálfaranum og liðsfélögunum hvað ég get gert. Þetta var eins og hver annar leikur og ég var afslappaður. Það er langt síðan að ég spilaði síðasta leik og það var því gott að komast aftur út á gólfið," sagði Blake Griffin sem var með 22.7 stig og 14,4 fráköst að meðaltali með Oklahoma-skólanum á síðasta tímabili.

„Hann réð vel við alla pressuna en ég hef ekki miklar áhyggjur af honum því hann mætir á hverjum degi til að leggja sig fram," sagði Mike Dunleavy, þjálfari Los Angeles Clippers. „Ég er ekki hissa á því að hann setti niður öll þessi skot. Ég horfi á hann daglega hitt 8 af 10 skotum frá fimm stöðum á vellinum," sagði Dunleavy.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×