Lífið

SAMDI DANS FYRIR SHAKIRU

útbreitt myndband Katrín Hall samdi dans í nýjasta myndbandi Shakiru. Myndbandið var frumsýnt á föstudag og hefur þegar fengið 220.000 áhorf á Youtube.MYnd/jónatan
útbreitt myndband Katrín Hall samdi dans í nýjasta myndbandi Shakiru. Myndbandið var frumsýnt á föstudag og hefur þegar fengið 220.000 áhorf á Youtube.MYnd/jónatan

„Það var mjög skemmtilegt að fá að dýfa litlu tánni í þennan ótrúlega iðnað í Hollywood," segir danshöfundurinn Katrín Hall, listrænn stjórnandi Íslenska dansflokksins.

Katrín samdi dansinn í nýjasta tónlistarmyndbandi Shakiru, við lagið Did it Again. Myndbandinu var leikstýrt af Sophie Muller, sem hefur unnið með mörgum af vinsælustu tónlistarmönnum heims, og var frumsýnt í þýska sjónvarpsþættinum Neu síðasta föstudag og fór í kjölfarið í spilun um allan heim. Þá hefur myndbandið verið spilað meira en 220.000 sinnum á Youtube. Shakira vildi sjálf fá Katrínu í verkefnið, en hún var hrifin af dansinum í stuttmyndinni Burst eftir Katrínu og Reyni Lyngdal. Katrín ber Shakiru söguna vel og segir hana vera mjög metnaðarfulla.

„Hún er fagmanneskja fram í fingurgóma og veit hvað hún vill," segir Katrín og bætir við að það sé virðingarvert að söngkonan reyni að stýra framhjá klisjum í myndbandinu. „Hún blandar saman listformum og menningarheimum. Þarna eru til dæmis kóreskar konur á ásláttarhljóðfærum og svo sækir hún danshöfund frá Íslandi. Hún á allan heiður skilinn fyrir sína viðleitni að fara ótroðnar slóðir."

Did it Again er önnur smáskífan af nýjustu plötu Shakiru, She Wolf, sem kom út í október. Platan hefur selst í meira en 600.000 eintökum frá því hún kom út og titillag plötunnar fór hátt á vinsældalistum um allan heim.

Myndbandið er sjóðandi heitt og dansinn fer að miklu leyti fram á rúmi inni í dimmu svefnherbergi. Dansarinn Daniel Cloud Como túlkar elskhuga Shakiru í myndbandinu, en hann hefur meðal annars dansað í tónleikaferðalögum Madonnu. „Hann er ótrúlega góður dansari," segir Katrín. „Við vorum mjög heppin að fá hann. Kemístrían á milli þeirra virkaði og þetta var mjög skemmtileg reynsla."

Æfingar fyrir myndbandið fóru fram í New York, en þar fékk Katrín tvo daga með Shakiru og Daniel. Tökur á myndbandinu fóru svo fram í Los Angeles og umfangið var samkvæmt því.

„Þetta var nánast eins og bíómynd," segir hún. „Það komu svo margir að gerð þessa stutta myndbands - hundruð manna og stúdíóið sem það var tekið upp í var risastórt og leikmyndin smíðuð frá grunni. Þetta var ótrúlegt."atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.