Körfubolti

Kobe er ekki að íhuga að hætta

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kobe Bryant.
Kobe Bryant. Nordic Photos/Getty Images

Bandarískir fjölmiðlar eru afar duglegir að fjalla um Kobe Bryant og löngun hans til þess að vinna sinn fjórða NBA-titil. Bryant er að klára sitt 13 tímabil í deildinni og er enn hungraður.

„Ég veit ekki hvað það er sem heldur mér gangandi í þessu. Ég elska leikinn bara svo mikið og ég tel mig enn geta bætt mig helling sem leikmaður. Líkaminn er í fínu standi og ef Guð lofar þá verður hann það áfram. Þá mun ég halda áfram," sagði Bryant.

Hann verður 31 árs gamall í ágúst og þarf að taka ákvörðun fljótlega varðandi framtíð sína. Hann er enn á samningi hjá Lakers og á að fá 23 milljónir dollara fyrir næstu leiktíð. Sá samningur er reyndar með uppsagnarákvæði sem Kobe getur nýtt sér í sumar.

Sem fyrr er mikið verið að bera Kobe saman við Michael Jordan en Jordan var aðeins þrítugur þegar hann hætti í fyrsta skipti til þess að leika hafnabolta.

Phil Jackson, þjálfari Lakers, segir enga hættu á öðru en að Kobe spili eins lengi og hann geti. Hann muni ekki feta í fótspor Jordan og hætta of snemma.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×