Heimsmarkaðsverð á olíu fór yfir 50 dollara á tunnuna í dag en þetta er í fyrsta sinn á síðustu fimm vikum sem slíkt gerist.
Samkvæmt frétt um málið á Bloomberg liggja tvær ástæður fyrir því að olíuverð fer nú hækkandi. Sú fyrri er að bæði Kuwait og Qatar ætla að draga úr olíusendingum sínum til Asíulanda í þessum mánuði. Er það gert eftir tilmælum frá OPEC, samtökum olíuframleiðsluríkja, frá í síðasta mánuði um að samtökin myndu skera niður framleiðslu sína um 2,2 milljónir tunna.
Hin ástæðan er gaskreppan sem nú er komin upp í Evrópu vegna deilu Rússa og Úkraníu um gasskuldir Úkraníumanna við rússneska olíufélagið Gazprom. Rússar hafa stórminnkað flutning sinn á gasi í gegnum leiðslur í Úkraníu og hefur það valdið gasskorti í nokkrum Evrópulöndum.