Viðskipti erlent

Íslenski hluturinn í Royal Unibrew skapar óvssu

Íslenski eignarhluturinn í Royal Unibrew skapar óvissu hvað varðar fyrirhugaða hlutafjáraukningu í þessum næststærstu bruggverksmiðjum Danmerkur. Hluturinn er nú í höndum Stoða og Straums og er upp á um 20%. Óvissan er um hvar þetta eignarhald endar að lokum.

Fjallað er um málið á börsen.dk og þar er rætt við Henrik Brandt um málið. Ætlun er að hlutafjáraukning upp á 400 milljónir danskra kr., eða um 10 milljarða kr., fari fram næsta vor og eiga núverandi hlutafjáreigendur forgang að kaupunum á hinu nýju hlutum. Henrik Brandt reiknar með að öll aukningin muni seljast til núverandi eigenda Royal Unibrew.

„Óvissuþátturinn er hulið eignarhald á rúmlega 20% eignarhlutnum á Íslandi sem enginn veit hvar endar eftir að fyrrum eigandi hans, Baugur, varð gjaldþrota. Nú er eignarhluturinn í höndum Stoða og Straums," segir á börsen.dk.

Henrik Brandt hafnar því að Íslendingarnir verði afgerandi hvað hlutafjáraukninguna varðar og tekur fram að hann sé í samræðum við stóra fjárfesta fyrir aukahluthafafund sem haldinn verður seinna í þessum mánuði.

Brandt vill ekki tjá sig nánar um hin íslensku áhrif og endurtekur að hlutafjáraukningin sé í þágu félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×