Skoðun

Sérstakur persónuafsláttur

Kristinn H. Gunnarsson skrifar
Óhjákvæmilegt er að hækka skatta og draga úr útgjöldum. Eðlilega skiptir miklu máli hvernig sköttunum er jafnað niður. Þá er nauðsynlegt að hafa í huga að byrði beinna skatta hefur síðustu 15 ár þyngst meira á lágar tekjur en háar.

Ójöfnuður í þjóðfélaginu hefur aukist. Hjá þeim sem hafa 20% lægstu tekjurnar hefur skattbyrðin hækkað þrisvar sinnum meira en meðaltalinu nemur. Hið gagnstæða gildir um 15% tekjuhæsta hópinn, þar hefur skattbyrðin lækkað. Hækkunin hjá tekjulága hópnum er um 14-15% af tekjum, frá engum sköttum upp í umtalsverða. Lækkunin hjá tekjuháa hópnum er mikil, mest hjá 1% tekjuhæsta hópnum. Skattbyrði hans var 35% af tekjum árið 1993 en aðeins 13% árið 2007. Þessar upplýsingar er að finna í gögnum sem Þjóðmálastofnun Háskóla Íslands hefur birt.

Þetta hefur gerst vegna þriggja ástæðna. Persónuafsláttur hefur lækkað að raungildi með árunum og sífellt lægri tekjur bera skatt. Hátekjuskattur var lagður af og almenn skattprósenta hefur lækkað. Hátekjufólk fær þess vegna fleiri krónur í skattalækkun en þeir sem lágar tekjur hafa. Í þriðja lagi er tekjuskattur á fjármagn mun lægri en á laun og á síðustu árum hefur vaxandi hlutur tekna einstaklinga verið af fjármagni. Fjármagnstekjurnar dreifast einkum á tekjuháa fólkið og eru stór hluti heildartekna þess hóps.

Nú þarf að snúa þróuninni við og auka jöfnuðinn í þjóðfélaginu. Hækkun skatta þarf að færast upp eftir tekjustiganum og hlífa þeim sem eru með lágar tekjur. Það verður helst gert með almennri hækkun skattprósentu, því að endurvekja hátekjuþrepið og því að hækka skatt á fjármagn. Taka á upp sérstakan persónuafslátt til lágtekjufólks, sem lækkar skattbyrðina svo að hún verði ekki meiri en meðaltalshækkun skattbyrðarinnar frá 1993. Vísa ég til frumvarps um sérstakan persónuafslátt sem ég flutti ásamt fleirum á Alþingi fyrir tveimur árum. Það á ekki að leggja þyngri byrðar á lágtekjufólk en aðra.

Höfundur er fyrrverandi alþingismaður.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×