Lífið

Friðrik jafnar fermingardrenginn

Ágúst ætlar að gefa 50.000 krónur af fermingarpeningunum til ABC hjálparstarfs. fréttablaðið/pjetur
Ágúst ætlar að gefa 50.000 krónur af fermingarpeningunum til ABC hjálparstarfs. fréttablaðið/pjetur

„Ég vildi gera eitthvað gott við peningana mína,“ segir hinn ungi og efnilegi Ágúst Ingason.

Ágúst stofnaði á dögunum hóp á Facebook og hét því að gefa 50.000 krónur af peningunum sem hann fær í fermingargjöf á næsta ári til ABC hjálparstarfs, ef 15.000 manns myndu ganga í hópinn fyrir 21. mars. Viðtökurnar voru með ólíkindum og aðeins nokkrum dögum síðar var takmarkinu náð og gott betur.

„Ef ég hefði ekki búið til þennan hóp á Facebook væri ekki eins mikið af fólki að gefa peninga,“ segir Ágúst sem er mjög ánægður með viðtökurnar. Fólk í hópnum er byrjað að gefa fé til hjálparstarfsins, en einn tók skrefið til fulls og stendur nú jafnfætis Ágústi. „Það er einn strákur sem ætlar að gefa 50.000 kall eins og ég. Ég veit ekki hver það er,“ segir hann og á þar við Friðrik Weisshappel, veitingamann í Kaupmannahöfn, sem var djúpt snortinn af framtaki Ágústs.

„Mér finnst þetta svo frábært framtak hjá stráknum að mig langaði til að leggja opinberlega mín lóð á vogaskálarnar,“ segir Friðrik. „Ég er inspíreraður af stráknum, hann er að gefa 50.000 krónur, 13 ára gamall. Mér fannst þetta svo óvenjulega fallegt og stórbrotið að ég ákvað sýna honum stuðning í verki.“

Það er ekki hægt að ljúka frétt um framtaksemi Ágústs án þess að fá viðbrögð frá mömmunni, Þórhildi Sif Þórmundsdóttur. „Við erum rosalega stolt af honum, foreldrar hans, og ættingjar og allir bara,“ segir hún og bætir móðurlega við að þótt hún hafi engar áhyggjur af því að Ágúst standi ekki við loforð sitt, þá verði því fylgt eftir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.