Lífið

Önnur þáttaröð af Rétti í tökur

Tökur hefjast á annarri þáttaröð af Rétti í byrjun nóvember. Fréttablaðið/gva
Tökur hefjast á annarri þáttaröð af Rétti í byrjun nóvember. Fréttablaðið/gva

„Ég held að fyrsta serían hafi sýnt það og sannað að hún hefði ákveðna spádómsnáðargáfu,“ segir Sigurjón Kjartansson, einn handritshöfunda sjónvarpsþáttanna Réttur. Hann vísar þar til þess að í fjórða þætti fyrstu þáttaraðarinnar var tekið fyrir mansalsmál en fyrsta mál þeirra tegundar er nú fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og ámóta mál kom nýverið upp í Reykjanesbæ.

Tökur á annarri þáttaröð hefjast í byrjun nóvember en það reynist heldur erfitt að draga eitthvað bitastætt upp úr Sigurjóni um efni þáttanna. Hann tekur þó skýrt fram að efnahagshrunið muni ekki leika stórt hlutverk í þáttunum, nógu margar heimildarmyndir hafi þegar verið gerðar um það efni. „En auðvitað er stemningin aðeins breytt þótt lögfræðistofur hafi ekki beint þurft að standa í hópuppsögnum, lögmenn hafa ekki verið neitt sérstaklega blankir í þessu árferði.“

Handritshöfundurinn hefur eytt drjúgum tíma í héraðsdómi til að afla sér upplýsinga og fá hugmyndir. Hann sat meðal annars í dómsal þegar dómur var kveðinn yfir syni Ásgeirs Þórs Davíðssonar, eiganda Goldfinger, en tekur skýrt fram að hvorki það mál né einhverjar tilvísanir í það rati á skjá landsmanna. Sigurjón segir það ekki neitt partístarf að sitja niðri héraðsdómi. „Nei, það er oft erfitt að halda sér vakandi og maður sér það líka á dómurunum, þeir eru geispandi úti um allt. Annars er langskemmtilegast þegar lögfræðingar á borð við Svein Andra og Brynjar Níelsson láta í sér heyra, þá er gaman.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.