Fótbolti

Poulsen tryggði Juventus sætan sigur

Poulsen hafði haft hægt um sig með Juventus síðan hann kom frá Sevilla á Spáni
Poulsen hafði haft hægt um sig með Juventus síðan hann kom frá Sevilla á Spáni AFP

Varamaðurinn Christian Poulsen var hetja Juventus í dag þegar hann tryggði liði sínu 2-1 útisigur á Catania. Poulsen skoraði sigurmarkið í uppbótartíma eftir að Juventus hafði spilað með 10 menn frá 12. mínútu.

Vicenzo Iaquinta fór illa að ráði sínu í upphafi leiksins og lét reka sig af velli skömmu eftir að hafa komið Juve yfir eftir tíu mínútna leik. Japaninn Takayuki Morimoto jafnaði fyrir Catania snemma í síðari hálfleik en danski leikmaðurinn tryggði Juve sigurinn í lokin.

Juventus hafði þá Alessandro Del Piero og David Trezeguet á bekknum í dag en liðið er nú sjö stigum á eftir efsta liðinu Inter sem vann Lecce örugglega 3-0 í gær. AC Milan er í þriðja sæti eftir 1-1 jafntefli við Reggina í gær.

Fiorentina smellti sér í fjórða sætið í dag eftir að Alberto Gilardino tryggði liðinu 1-0 sigur á Lazio. Rómverjarnir voru manni færri síðustu 20 mínúturnar, en þjálfari liðsins Delio Rossi er undir síauknum þrýsingi vegna slakrar frammistöðu liðsins undanfarið.

Roma er í fimmta sætinu ásamt Genoa eftir 3-0 sigur í viðureign liðanna í dag þar sem tveir leikmenn voru reknir af velli í síðari hálfleik.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×