Stöð 2 Sport verður með sannkallaðan risaleik úr NBA deildinni í beinni útsendingu klukkan 20:30 í kvöld þegar Cleveland tekur á móti LA Lakers.
Hér eru á ferðinni tvö af bestu liðum deildarinnar sem hafa í sínum röðum líklega tvo bestu leikmenn deildarinnar - LeBron James og Kobe Bryant.
Báðir leikmenn komust í fréttirnar í síðustu viku þegar þeir fóru hamförum á stærsta sviði körfuboltans, Madison Square Garden, heimavelli New York.
Kobe Bryant skoraði 61 stig í sigri Lakers í New York og LeBron James skoraði 52 stig í sigri Cleveland á sama stað nokkrum dögum síðar.
Cleveland hefur ekki tapað leik á heimavelli í allan vetur og hefur unnið 39 leiki og tapað aðeins 9. Cleveland hefur unnið alla 23 heimaleiki sína á leiktíðinni og hefur raunar unnið síðustu fjóra leiki sína þar gegn Lakers.
Lakers hefur unnið 40 leiki og tapað 9 en liðið varð fyrir áfalli á dögunum þegar ljóst varð að miðherjinn Andrew Bynum gæti ekki spilað meira með liðinu á leiktíðinni vegna meiðsla.
Leikurinn í kvöld er síðari viðureign liðanna í deildinni í vetur en þá fyrri vann Lakers liðið örugglega á heimavelli sínum þann 19. janúar, 105-88.
Þetta er reyndar ekki eini stórleikurinn í NBA í kvöld því strax klukkan 18 eigast við Boston og San Antonio - meistaralið síðustu tveggja ára.