Erlent

Afsögn Björgvins vekur athygli

Íslenska ríkisstjórnin er fyrsta pólitíska fórnarlamb alheimskreppunnar að mati erlendra fjölmiðla sem fjallað hafa um afsögn viðskiptaráðherra.

Breska blaðið Daily Mail fjallar um afsögn viðskiptaráðherra á vefsíðu sinni og segir ríkisstjórnina fyrst fórnarlamb kreppunnar á vettvagni alþjóðastjórnmála. Blaðið fjallar einnig um þá ákvörðun forsætisráðherra, Geirs H. Haarde, að gefa ekki aftur kost á sér sem formaður Sjálfstæðisflokksins og veikindi hans. Sagt er frá því að lögregla hafi í síðustu viku beitt táragasi gegn mótmælendum í fyrsta sinn í áratugi.

Sænska útvarpið fjallar einnig um afsögnina sem og flestir aðrir norrænir miðlar.

Bandaríska stórblaðið Washington Post fjallar einnig um málið á vefsíðu sinni og stöðu mála í íslensku efnahagslífi sem það segir vægast sagt bágborna.

Viðskiptablaðið Forbes hefur eftir Reuters fréttastofunni að viðskiptaráðherra hafi dregið í efa getu íslensku ríkisstjórnarinnar til að starfa fram að kosningum sem yrðu þá líkast til haldnar í maí. Hann drægi einnig í efa getu hennar til að takast á við ástand efnahagsmála.

CNN vitnar í viðskiptaráðherra að margir beri ábyrgð á vandanum sem nú blasi við á Íslandi og ríkisstjórninni hafi ekki tekist að endurvekja traust.




Tengdar fréttir

Björgvin segir líklega af sér

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hefur boðað til fréttamannafundur nú klukkan hálfellefu. Samkvæmt heimildum fréttastofu er líklegt að Björgvin tilkynni um afsögn sína sem ráðherra.

Björgvin boðar til blaðamannafundar

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hefur boðað til fréttamannafundur nú klukkan hálfellefu og er búist við tíðindum sem tengjast framhaldi stjórnarsamstarfsins. Háværar raddir hafa verið allt frá bankahruninu í haust að Björgvin viki sem ráðherra bankamála og forystumenn Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins færu sömuleiðis. Líklegt þykir að einhver tíðindi af þessu tagi verði kynnt í dag.

Björgvin, Jónas og stjórn FME láta af störfum

Björgvin G. Sigurðsson hefur sent Geir H. Haarde, forsætisráðherra, bréf þar sem hann biðst lausnar sem viðskiptaráðherra. Björgvin greindi frá þessu á fundi með blaðamönnum. Jafnframt tilkynnti hann að Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, og stjórn Fjármálaeftirlitsins láti af störfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×