Viðskipti erlent

Tívólí skiptir út Carlsberg fyrir Royal Unibrew

Hið sögufræga Tívolí í Kaupmannahöfn hefur ákveðið að skipta út drykkjarvörum frá Carlsberg og taka inn Royal Unibrew í staðinn. Sem kunnugt er af fréttum eru Stoðir stærsti hluthafinn í Royal Unibrew og saman eiga Stoðir og Straumur rúmlega 20% hlut í þessum næststærstu bruggverksmiðjum Danmerkur.

Breytingin tekur gildi frá og með áramótum og segir í frétt um málið á börsen.dk að í framtíðinni verði gestum í Tívólí boðið upp á Royal bjórtegundir, Pepsi, Faxe Kondi, Heineken, Nikoline og Egekilde. Um samning til fimm ára er að ræða.

Lars Liebst forstjóri Tívolí segir að hann sé ánægður með þessi skipti. Samtímis verður Royal Unibrew kostunaraðili fyrir tónleikaröðina Fredagsrock en þar er um 20 tónleika að ræða á hverju ári og samtals sækja um hálf milljón gesta hana.

"Tívolí er eitt sterkasta vörumerki Danmerkur og þetta er því samstarf sem við erum mjög stolt af," segir Hans Savonije forstjóri Norður-Evrópudeildar Royal Unibrew í samtali við börsen.dk. "Þetta gefur okkur einstakt tækifæri til að styrkja markaðsstöðu okkar á höfuðborgarsvæðinu."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×