Viðskipti innlent

Fuzzy kollarnir sýndir og seldir í Magasin du Nord

Fuzzy kollarnir íslensku eru nú til sýnis og sölu í dönsku stórversluninni Magasin du Nord. Þar er þeim stillt upp í sérstöku rými þar sem ný og spennandi hönnun er til sýnis.

Sigurður Már Helgason hönnuður og smiður Fuzzy kollanna segir að þetta sýni að víða séu tækifæri í kreppunni. Hann er ánægður með að kollarnir séu til sölu í Danmörku og minnist þess ekki að íslensk húsgögn hafi áður verið seld þar í landi.

„Framundan hjá mér er svo að smíða sérstaka afmælisútgáfu af Fuzzy í tilefni þess að ég er að smíða þúsundasta eintakið af þessum kollum," segir Sigurður. „Sá kollur verður frábrugðin hinum að því leiti að undir honum verða álfætur."

Sigurður, sem orðinn er 69 ára gamall, segir að upphaflega hafi hann farið að smíða Fuzzy kollana til að hafa eitthvað að dunda við í ellinni. Nú hinsvegar anni hann ekki eftirspurn eftir þeim.

Fuzzy kollurinn hefur fjóra ávala viðarfætur. Setan er bólstruð með ekta íslenskri gæru.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×