Viðskipti innlent

Hætta við flug til Madeira, Pula, Düsseldorf og Ham­borgar

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Sérfræðingur í almannatengslum segir félagið vera með gott úrval af áfangastöðum fyrir sólþyrsta Íslendinga í sumar.
Sérfræðingur í almannatengslum segir félagið vera með gott úrval af áfangastöðum fyrir sólþyrsta Íslendinga í sumar. Vísir/Vilhelm

Viðskiptavinir Play sem áttu bókuð flug til valdra áfangastaða í Króatíu, Þýskalandi og Madeiru í sumar hafa fengið tilkynningu um að fluginu hafi verið aflýst. Leiðkerfi félagsins í sumar verður breytt vegna breytinga á flugvélakosti.

Birgir Olgeirsson, sérfræðingur í almannatengslum hjá Play, segir að félagið sé að leigja frá sér fjórar vélar út árið 2027 og taka eina vél á leigu á móti yfir háannatímann. Það leiði óhjákvæmilega til breytinga á leiðakerfinu. Hann bendir á að þó að hætt verði við flug til Pula í sumar verði áfram hægt að fljúga til Split, sunnar á Adríahafsströnd Króatíu, sem einnig er vinsæll meðal íslenskra ferðamanna. Í sumar verður flogið þangað tvisvar í viku en síðasta sumar var aðeins ein ferð á viku.

„Við erum enn þá að fljúga á þessa staði sem eru vinsælir hjá Íslendingum. Það verður mjög gott sumar hjá okkur og mjög gott úrval af áfangastöðum,“ segir hann.

Einnig verður hætt flugi til Düsseldorf og Hamborgar í sumar en flogið áfram til Berlínar. Ekki verður flogið til portúgölsku eyjarinnar Madeiru í sumar en tekið verður upp á því aftur í vetur. Þá hefst flug til Valenciaborgar á Spáni seinna en áætlað var og aðeins verður flogið þangað yfir háannatíma sumarsins.

„Við erum að taka fjórar arðbærar vélar og setja í arðbær verkefni, á sama tíma erum við með öflugt flug frá Íslandi til sólarlanda. Þetta er bara í takt við það sem hefur tilkynnt síðan í október,“ segir Birgir Olgeirsson, sérfræðingur í almannatengslum hjá Play.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×