Lífið

Hallgrímur og Jónína ræða um kynlífslýsingar

Hallgrímur Helgason
Hallgrímur Helgason

„Hvað þarf góð kynlífslýsing að hafa til brunns að bera svo hún teljist sómasamleg? Kynlífslýsingar mega ekki vera teprulegar og óskáldlegar og alls ekki of klámfengnar," segir Hallgrímur Helgason rithöfundur. Hann mun ásamt Jónínu Leósdóttur heimsækja Vatnsendaskóla á þriðjudagsmorgun og ræða þar við unglinga um kynlífslýsingar í bókum. Heimsóknin er hluti af átaki Rithöfundasambands Íslands sem nefnist skáld í skólum.

Aðspurður viðurkennir Hallgrímur að þau Jónína séu nokkuð ólíklegt par. Og það má til sanns vegar færa. Bæði eiga þau auðvitað farsælan feril að baki í ritstörfum en þess utan er Jónína auðvitað forsætisráðherrafrú Íslendinga og Hallgrímur var í fremstu víglínu búsáhaldabyltingarinnar fyrr á þessu ári. Sem steypti ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar af stóli og varð þess valdandi að Jóhanna Sigurðardóttir settist í stól forsætisráðherra. En nóg um það.

Hallgrímur segist ekki búast við því að umræða um kynlífslýsingar eigi eftir að hneyksla unglingana, þeir séu öllu vanir. Það séu kannski frekar kennarararnir sem verði í áhættuhópi. Kynlífslýsingar reynast stundum skáldum óþægur ljár í þúfu og það þarf að gæta sín vel á því að fara ekki yfir strikið. Maður þarf að vera kynþokkafullur án þess að fara yfir klámlínuna og hún þarf að vera sönn," útskýrir Hallgrímur. Að hans mati má því kynlífslýsingin ekki vera of ýkt. „Það hefur oft gefið góða raun að vera fyndinn í kynlífslýsingum því þetta er svo viðkvæmt efni og það þarf mjög lítið til svo að fólk fari að hlæja."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.