Lífið

Grínhátíð frestað vegna dræmrar miðasölu

Grínhátíðinni Reykjavik Comedy Festival hefur verið slegið á frest til næsta vors.
Grínhátíðinni Reykjavik Comedy Festival hefur verið slegið á frest til næsta vors.
„Jú, þetta eru viss vonbrigði en það þýðir ekkert að gefast upp,“ segir Bjarni Haukur Þórsson. Grínhátíðinni Reykjavik Comedy Festival, sem átti að hefjast í Loftkastalanum á morgun, hefur verið frestað fram á næsta vor.

Ástæðan er dræm miðasala, auk þess sem tveir erlendir uppistandarar þurftu að afboða komu sína. Annar þeirra er Björn Gustavsson sem Bjarni Haukur hefur lýst sem strákabandsútgáfu af Pétri Jóhanni. „Það var búið að kynna þetta mjög mikið, bæði í háskólum og menntaskólum og við meira að segja prufuðum að lækka miðaverðið en kannski eru krakkar ekki með neina peninga á milli handanna,“ segir Bjarni Haukur, sem er undrandi á þessum dræmu viðbrögðum. „Öllum sem maður nefndi þetta við fannst kominn tími á að vera með eitthvað svona, enda er þetta hefð í mörgum borgum. En við verðum bara að prófa þetta aftur með hækkandi sól og þá er vonandi að Íslendingar taki betur við sér.“ Bætir hann við að allir þeir sem hafi keypt miða á hátíðina fái endurgreitt.

Fjöldi íslenskra grínista átti að troða upp á hátíðinni. Þar má nefna Kaffibrúsakarlana, Radíus­bræður, hópinn Mið-Ísland og Helgu Brögu. Einnig áttu óreyndir grínistar að fá tækifæri á svokölluðu „open mike“-kvöldi, auk þess sem sérstakt „X-rated“-kvöld átti að fara fram. - fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.