Viðskipti erlent

Landic Property VII tekið til gjaldþrotaskipta

Landic Property VII, eitt af dótturfélögum Landic Property á Norðurlöndunum hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Tilkynning um gjaldþrotaskiptin barst kauphöllinni í Stokkhólmi í dag.

Í frétt um málið á business.dk segir að félagið hafi áður verið eitt af Keops-fasteignafélögunum en er nú komið í þrot þar sem ekki tókst að endurskipuleggja reksturinn. Eitt af höfuðatriðunum í þeirri endurskipulagningu var salan á eigninni Medicinaren í Svíþjóð en sú salan gekk ekki eftir.

Þar að auki var áætlunin sú að eigendur skuldabréfa á félagið myndu breyta þeim bréfum yfir í hlutafé. Þessi hópur ákvað á fundi að gera slíkt ekki.

Landic Property VII kemur við sögu í tilkynningu Landic Property frá því í apríl s.l. þegar móðurfélagið sótti um greiðslustöðvun við Héraðsdóm Reykjavíkur.

Í tilkynningunni sagði að dótturfélög Landic Property sem eiga og reka fasteignir félagsins í Danmörku, Svíþjóð, Íslandi og Finnlandi eru ekki í greiðslustöðvun og gildir greiðslustöðvunin m.a. ekki um Landic Property Bonds VII (Stokkhólm) A/S en nokkur fjöldi annara félaga var einnig nefndur til sögunnar.

Frá þessum tíma hefur verið reynt að tryggja rekstur félagsins eins og áður segir en það var ekki mögulegt.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×