Innlent

Greiðsluaðlögun samþykkt samhljóða

Ragna Árnadóttir, dóms- og kirkjumálaráðherra.
Ragna Árnadóttir, dóms- og kirkjumálaráðherra.
Í dag voru samþykkt á Alþingi lög um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti svonefnda greiðsluaðlögun sem taka gildi 1. apríl. Með þessari breytingu á lögunum er skuldara gert kleift að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar við kröfuhafa sína með aðstoð umsjónarmanns. Frumvarpið var samþykkt samhljóða með 46 atkvæðum.

Ragna Árnadóttir, dóms- og kirkjumálaráðherra, mun með reglugerð fela Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna að aðstoða þá sem sækja um greiðsluaðlögun við gerð beiðni, greiðsluáætlunar og annarra nauðsynlegra fylgigagna sem og að veita frekari upplýsingar.

Fram kemur í tilkynningu frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu að upplýsingar verði að finna á heimasíðu Ráðgjafarstofunnar, www.rad.is, frá 1. apríl.

Reglunum um greiðsluaðlögun er ætlað að aðstoða þá skuldara sem glíma við verulegan fjárhagsvanda og eru ófærir um að standa í skilum með skuldir sínar um fyrirséða framtíð. Greiðsluaðlögun tekur til skulda sem ekki eru tryggðar með veði í eignum skuldara. Um málsmeðferðina gilda hinar almennu reglur nauðasamninga með ákveðnum frávikum sem einfalda málsmeðferðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×