Lífið

Eldri borgarar sauma út Helvítis fokking fokk

Arndís Sigurbjörnsdóttir við útsaumsmyndir sínar. Öðruvísi útsaumur Helgi Hós og Helvítis fokking fokk.
Arndís Sigurbjörnsdóttir við útsaumsmyndir sínar. Öðruvísi útsaumur Helgi Hós og Helvítis fokking fokk.
Helvítis fokking fokk er fyrir löngu orðið sígilt slagorð. Fátt þykir táknrænna fyrir það sem á okkur hefur dunið síðustu misserin. Slag­orðið er eitt af þeim sem Arndís Sigurbjörnsdóttir, sem sér um félagsstarfið í þjónustuíbúðum eldri borgara á Dalbraut 27, hvetur þátttakendurna til að sauma út.

„Þeim þykir nú samt ekki alveg passa að sauma út „Helvítis“, en að öðru leyti eru þau hrifin af þessu,“ segir Arndís. „Ég kalla þetta saumaverkefni „Gríptu augnablikið“ og hvet fólk til að sauma það út sem þeim dettur í hug. Tjá augnablikið. Það er ætlunin að hver geri sitt. Myndirnar mínar eru bara til að koma fólki af stað.“

Arndís hefur búið til sextán útsaumsmyndir sem hugmyndir fyrir heldra fólkið og til viðbótar við „Helvítis fokking fokk“ má þarna sjá annað mótíf úr hruninu, „Guð blessi Ísland“, auk þekktari útsaumsmótífa eins og „Heima er best“ og „Drottinn blessi heimilið“. „Svo er þarna mynd sem mér datt í hug til minningar um Helga Hóseasson,“ segir Arndís. „Þetta er held ég eini minnisvarðinn um hann sem er kominn. Ég geri líka abstraktmyndir. Það er undarlegt hvernig hugurinn virkar. Ég varð veik um daginn og þá gerði ég fyrstu svart-hvítu myndina mína.“

Arndís hefur unnið við félagsstarfið á Dalbraut 27 frá byrjun, í þrjátíu ár. „Við höldum upp á afmælið um næstu mánaðamót og ætlum að hafa jólastemningu í einu herberginu af því tilefni,“ segir hún. „Hér er mikið listastarf. Við veljum listamann mánaðarins sem við leyfum að vera stjarna í mánuð. Svo er ýmislegt í boði. Vöfflukaffi, boccia, bingó og videó einu sinni í mánuði. Sound of Music var síðast og svo sýnum við Börn náttúrunnar svona einu sinni á ári.“

drgunni@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.