Svali H. Björgvinsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri starfsmannasviðs Icelandair. Hann mun jafnframt sinna stefnumótun félagsins og sitja í framkvæmdastjórn þess. Svali tilkynnti samstarfsmönnum sínum í gær hjá Kaupþingi að hann hefði samið um starfslok hjá bankanum.
Svali hóf störf hjá bankanum árið 2003 sem framkvæmdastjóri starfsmannasviðs bankans. Þar áður var hann ráðgjafi og meðeigandi hjá PricewaterhouseCoopers. Hann nam sálfræði við Háskóla Íslands og vinnusálfræði og stjórnun frá New York University. Svali hefur auk þess kennt mikið við Háskóla Íslands og haldið fjölda námskeiða og fyrirlestra.
