Innlent

Aðeins níu mál tengd hagsmunum atvinnulífs og heimila

Birgir Ármannsson veltir því fyrir sér hvort samningar ríkisstjórnarinnar við Framsóknarflokkinn séu tímafrekir.
Birgir Ármannsson veltir því fyrir sér hvort samningar ríkisstjórnarinnar við Framsóknarflokkinn séu tímafrekir.
Ríkisstjórnin hefur einungis lagt fram 16 mál á þingi af þeim 30 frumvörpum og þingsályktunartillögum sem ríkisstjórnin hefur afgreitt frá sér frá því hún tók við völdum í lok janúar, segir Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Ríkisstjórnin lagði, á blaðamannafundi í morgun, fram lista yfir þau þingmál sem ríkisstjórnin hefur afgreitt frá sér frá því hún tók við völdum í lok janúar.

„Þar er um að ræða 30 frumvörp og þingsályktunartillögur. Á fundinum talaði forsætisráðherra um að ríkisstjórnin hefði afgreitt málin til þingsins en rétt er að geta þess að nú þegar þingfundi er að ljúka í dag hafa aðeins 16 þessara mála verið lögð fram á þingi," segir Birgir. Hann bendir á að sjö þingmál hafi þar með bæst við frá því í síðustu viku en fjórtán frumvörp eða stjórnartillögur séu enn einhvers staðar á leiðinni milli Stjórnarráðsins og Alþingishússins. „Spyrja má hvort þessi mál liggi óafgreidd í þingflokkum stjórnarflokkanna eða hvort samningar við Framsóknarflokkinn taki svona langan tíma. Það er að minnsta kosti ekki rétt sem ráða mátti af orðum Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á blaðamannafundinum, að þingið sé með einhverjum hætti að draga lappirnar við afgreiðslu þessara mála," segir Birgir.

Þá segir Birgir að aðeins 9 af þessum 30 málum tengist hagsmunum atvinnulífs og heimila samkvæmt skilgreiningu ríkisstjórnarinnar sjálfrar. „Ef ríkisstjórnarflokkarnir settu þessi 9 mál í forgang væri ekkert því til fyrirstöðu að koma þeim með eðlilegum hætti í gegnum þingið og ljúka jafnframt þingstörfum þannig að eðlilegur tími gefist til að heyja kosningabaráttu. Vandinn eykst hins vegar ef þessir flokkar ætla sér líka að fá öll hin málin afgreidd fyrir þinglok," segir Birgir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×