Viðskipti erlent

Sjælsö Gruppen skilaði 4 milljörðum í hagnað

Fasteignafélagið Sjælsö Gruppen skilaði 205 milljónum danskra kr. hagnaði fyrir skatt á síðasta ári eða um 4 milljörðum kr.. Björgólfur Thor Björgólfson á 30% í Sjælsö Gruppen ásamt bræðrunum Torben og Ib Rönje í gegnum félagið SG Nord Holding.

Þessi hagnaður er mun minni en árið 2007 er Sjæsö Gruppen skilaði um milljarði danskra kr. eða um 20 milljörðum kr. í hagnað.

Samkvæmt frétt um málið á business.dk mun Sjælsö Gruppan hafa afskrifað 65 milljónir danskra kr. eða um 1,3 milljarða kr. eftir árið sökum markaðsaðstæðna á árinu en fjármálakreppan hefur komið við kaunin á Sjælsö eins og öðrum fasteignafélögum í Danmörku.

Sjælsö íhugar nú að fá nýtt fjármagn inn í félagið og yrði það hugsanlega gert með nýju hlutafjárútboði að því er segir á business.dk. SG Holding sem er stærsti hluthafi félagsins mun vera jákvætt gagnvart slíku hlutafjárútboði.

Eignaumsvif Sjælsö námu tæpum 3,3 milljörðum danskra kr. um áramótin síðustu, eða um 66 milljörðum kr. en þessi upphæð nam 2,9 milljörðum danskra kr. árið áður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×