Lífið

Fatahönnuðir bjóða í heimsókn

Gunnar Hilmarsson, formaður Fatahönnunarfélags Íslands, segir fatahönnun vera í mikilli uppsveiflu.
Fréttablaðið/arnþór
Gunnar Hilmarsson, formaður Fatahönnunarfélags Íslands, segir fatahönnun vera í mikilli uppsveiflu. Fréttablaðið/arnþór
„Þetta er „súpudagur" fatahönnuða, með þessu framtaki viljum við þakka fólki góðar móttökur og bjóða fólki í heimsókn og upplifa skemmtilega jólastemningu í leiðinni," segir Gunnar Hilmarsson, formaður Fatahönnunarfélags Íslands.

Fatahönnuðir við Laugaveg og nærliggjandi götur bjóða gestum og gangandi í heimsókn í kvöld. Boðið verður upp á veitingar og ýmis skemmti­atriði auk þess sem fólki gefst færi á að skoða nýjar jóla- og vetrarvörur. „Hönnunarverslunum hefur fjölgað mjög hratt á síðustu árum og nú hefur myndast skemmtilegur kjarni hönnunarverslana í kringum Laugaveg og nærliggjandi götur. Stór hópur fólks kemur niður í miðbæ til að heimsækja þessar verslanir og þið getið rétt ímyndað ykkur hversu tómlegur Laugavegurinn væri ef þessar hönnunarverslanir væru ekki."

Sextán hönnunarverslanir í miðbænum taka þátt og má nefna verslanir á borð við Nikita, Elabel, Andersen og Lauth, Steinunn, ELM, Júniform, Nakta apann auk annarra. „Það er mikill samhugur meðal fatahönnuða og fólk talar mikið saman, skiptist á upplýsingum og hjálpar hvað öðru og við höfum einnig staðið að nokkrum samsýningum fyrir viðburði, eins og Bleika kvöldið." Aðspurður segir Gunnar að áætlað sé að gera þetta að föstum lið og að félagið standi fyrir degi sem þessum tvisvar á ári, fyrir jól og aftur að vori.

Dagskráin hefst klukkan 18.00 og stendur til klukkan 21.00. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.