Viðskipti innlent

Kaupþing í Lúxemborg fær 86 milljarða lán

Mikilvægur áfangi hefur náðst í endurskipulagningu Kaupthing Bank Luxembourg S.A., dótturfélags Kaupþings banka hf. með samkomulagi milli bankanna um uppgjör sín á milli. Samkomulagið er hluti af endurskipulagningu bankans sem var samþykkt af yfirvöldum í Lúxemborg með samningi við fjárfestingarsjóð í eigu Líbýskra yfirvalda frá því í desember 2008.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kaupthing Bank í Lúxemborug. Þar segir ennfremur að jafnframt liggi fyrir vilyrði ríkisstjórna Lúxemborgar og Belgíu ásamt innstæðutryggingasjóði Lúxemborgar um lán til Kaupthing Bank Luxembourg að fjárhæð 600 milljónir evra eða sem nemur um 86 milljörðum íslenskra króna.

„Endurskipulagningin er háð samkomulagi við aðra kröfuhafa Kaupthing Bank Luxembourg S.A., sem eru 25 alþjóðlegir bankar, um framlengingu lána og niðurfellingu þeirra að hluta. Gert er ráð fyrir að afstaða þeirra liggi fyrir innan tveggja vikna. Umsjónarmenn greiðslustöðvunar Kaupthings Bank Luxembourg S.A., sem skipaðir eru af dómstólum í Lúxemborg, hafa krafist þess að hlutafé í Kaupthing bank Luxembourg S.A. verði fært niður enda ljóst að virði þess er ekkert.

Í framhaldinu er gert ráð fyrir að nýir eigendur muni leggja bankanum til nýtt hlutafé sem nemur 100 milljónum evra eða sem nemur um 15 milljörðum íslenskra króna. Sérstaklega er tekið fram í samkomulaginu, að aðgangur íslenskra yfirvalda að upplýsingum frá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. mun ekki skerðast gangi endurskipulagning bankans eftir.

Eitt af megin markmiðunum með endurskipulagningu bankans er að tryggja að nálega 22 þúsund manns í Lúxemborg, Belgíu og Sviss fá allar innstæður sínar greiddar að fullu. Langflestir þessara aðila eru belgískir viðskiptavinir Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Að öðru óbreyttu er gert ráð fyrir að endurskipulagningu bankans verði lokið fyrir miðjan apríl."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×