Viðskipti innlent

Eignir Magnúsar öruggar í Rússlandi

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Lítil verðmæti eru í gjaldþrota búi Magnúsar Þorsteinssonar. Eignir hans og eiginkonu hans hér á landi telja aðallega lúxusíbúð og húseignir á Akureyri.

Hann var um tíma einn efnaðasti fjárfestir landsins en undanfarin misseri hafa eignir hans hér á landi orðið nær verðlausar.

Magnús átti um tíma 10 prósent hlut í Icelandic Group í gegnum Frontline Holding. Straumur Burðarás fékk veð í þeim bréfum þegar Magnús fékk eins milljarða króna lán frá bankanum. Þetta lán varð Magnúsi svo að falli í gær þegar hann var úrskurðaður gjaldþrota.

Aðrar eignir Magnúsar hér á landi er 33% í Eimskip í gegnum Frontline Holding en sá hlutur hefur fallið gríðarlega í verði að undanförnu og er um 622 milljóna króna virði í dag. Þá á Magnús fyrstu og þriðju hæð í reisulegu húsi sem er við Hafnarstræti á Akureyri. Eiginkona hans er skráð fyrir öðru húsi þar í bæ sem er tæpir 300 fermetrar.

Magnús keypti líka glæsiíbúð í skuggahverfinu árið 2007 en hún var skráð á eiginkonu hans síðasta haust. Magnús hefur undanfarin ár verið í Rússlandi þar sem hann hefur fjárfest í fasteignum. Hann á einnig prentsmiðju ásamt Björgólfi Guðmundssyni auk þess sem hann hefur tekið þátt í hafnarverkefni í Pétursborg.

Verðmæti eigna Magnúsar í Rússlandi er að öllum líkindum meira en það er hér á landi. Lögfræðingur sem fréttastofa ræddi við í dag telur það mjög erfitt ef ekki ómögulegt að sækja rétt á hendur honum í Rússlandi þar sem landið er ekki aðili að Lugano samningnum sem kveður á um aðfararhæfi dóma sem eru kveðnir upp í öðrum löndum.

Það þyrfti því að höfða mál gegn Magnúsi fyrir rússneskum dómstólum til að hann yrði aðfararhæfur þar í landi. Fréttastofa reyndi í dag að ná tali af Magnúsi en hann neitaði viðtali.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×