Viðskipti erlent

Findus í þrot í Bretlandi vegna Landsbankans

Enn berast fréttir af vandræðum erlendra fyrirtækja vegna íslenska bankahrunsins í haust. Nú hefur matvælafyrirtækið Findus í Newcastle í Bretlandi óskað eftir greiðslustöðvun og eru 430 störf þar á bæ í hættu. Landsbankinn var helsti lánveitandi fyrirtækisins.

Samkvæmt frétt um málið í breska blaðinu Guardian er nú leitað að kaupenda að verksmiðjunni í Newcastle en rekstur hennar hefur legið niðri síðan í síðustu viku er eldsvoði skemmdi stóran hluta hennar.

Núverandi eigandi Findus í Bretlandi er norski athafnamaðurinn Geir Frantzen. Hann þykir litríkur og hefur oft komið við sögu í slúðurdálkum breskra dagblaða. Er það einkum vegna sambands hans við Söru Ferguson hertogaynju af York og fyrrum eiginkonu Andrew prins.

Findus hefur sérhæft sig í framleiðslu á tilbúnum réttum, einkum úr fiski en vörumerkið er í eigu Wallenberg fjölskyldunnar í Svíþjóð. Geir Frantzen keypti réttinn að merkinu fyrir Bretland árið 2005.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×