Viðskipti erlent

Síðasti eigandi Nyhedsavisen er gjaldþrota

Morten Lund, síðasti eigandi Nyhedsavisen í Danmörku, var lýstur gjaldþrota við Sjó- og kaupréttinn í Kaupmannahöfn í dag.

Þeir Svenn Dam stjórnarformaður Nyhedsavisen og Morten Nissen Nielsen forstjóri útgáfunnar stefndu Morten Lund fyrir réttinn þar sem þeir töldu að Lund bæri persónulega ábyrgð á vangoldnum launum þeirra eftir að Nyhedsavisen fór í þrot. Samtals var um 10 milljónir danskra kr. að ræða eða um 220 milljónir kr..

Lund reyndi hvað hann gat til að komast hjá réttarhaldinu í dag, m.a. með því að biðja þá tvo opinberlega afsökunar á mistökum sínum. Það dugði ekki til og rétturinn dæmdi Lund persónulega gjaldþrota.

"Þetta er eins og að einhver hafi stolið skikkju Superman," segir Lund í samtali við Jyllands-Posten um málið. "Mér er brugðið og ég hef ekki áhuga á að ræða málið."

Morten Nissen Nielsen segir að það sé aldrei gleðiefni að horfa á einhvern verða gjaldþrota og hann veit ekki hvort hann fái kröfu sína nokkurn tíman greidda.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×