Ítalíumeistarar Inter lentu í basli með Genoa í sextán liða úrslitum ítölsku bikarkeppninnar í kvöld. Genoa lék einum manni færri frá 19. mínútu en þrátt fyrir liðsmuninn fór leikurinn í framlengingu.
Adriano kom Inter yfir á 75. mínútu en nokkrum mínútum síðar jafnaði Rossi fyrir Genoa. Staðan 1-1 eftir venjulegan leiktíma og því þurfti að grípa til framlengingar.
Í framlengingunni sást að leikmenn Genoa voru orðnir þreyttir og skoruðu Cambiasso og Zlatan Ibrahimovic fyrir Inter sem vann 3-1 sigur. Inter mun mæta Roma í átta liða úrslitum keppninnar.