Fótbolti

Inter tapaði 3-0 gegn tíu mönnum Sampdoria

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho þjálfari Inter.
Jose Mourinho þjálfari Inter. Mynd/GettyImages

Inter Milan er komið með annan fótinn út úr ítalska bikarnum eftir 3-0 tap í fyrri leik undanúrslitanna á móti Sampdoria í kvöld. Sampdoria lék manni færri síðasta hálftíma leiksins en það kom ekki að sök.

Giampaolo Pazzini skoraði tvö mörk eftir að Antonio Cassano hafði nýtt sér varnarmistök Nelson Rivas og kom Sampdoria yfir eftir níu mínútna leik.

Jose Mourinho, þjálfari Inter, gerði margar breytingar á liði Inter og tefldi fram hálfgerði varaliði í leiknum. "Þegar það vantar mikið af mönnum þá erum við ekki með jafnsterkt lið og venjulega," sagði Mourinho eftir leik en hann var eflaust að hugsa um seinni leikinn gegn Manchester United í Meistaradeildinni þegar hann ákvað að hvíla sína bestu menn.

Inter varð einnig fyrir áfalli í seinni hálfleik þegar Mario Balotelli, leikmaður Inter, hné niður á miðjum vellinum nokkrum mínútum eftir að hann hafði hlaupið á aðra stöngina.

Lazio vann 2-1 sigur á Juventus í hinum undanúrslitaleiknum en síðari leikir liðanna fara fram í aprílmánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×