Sport

Warner áfram hjá Cardinals

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Warner kom Cardinals í SuperBowl í fyrsta skipti í sögu félagsins.
Warner kom Cardinals í SuperBowl í fyrsta skipti í sögu félagsins. Nordic Photos/Getty Images

Hinn 37 ára gamli leikstjórnandi, Kurt Warner, ætlar ekki að leggja skóna á hilluna og hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Arizona Cardinals.

Warner fær 23 milljónir fyrir þennan tveggja ára samning. Það er fínn samningur en Warner vildi meira og komast í topp fimm hóp leikstjórnenda með bestu launin. Hann vildi upprunalega fá 14,5 milljónir á ári. Við þeirri kröfu var ekki orðið.

Ferill Warners er eitt öskubuskuævintýri. Honum var aldrei spáð frama. Þegar jafnaldrar hans voru á leiðinni í NFL var hann að raða vörum í hillur.

Hann byrjaði svo að spila í Arena Football League, fór þaðan yfir í Evrópudeildina í amerískum fótbolta þar sem hann blómstraði og fékk samning hjá St. Louis Rams.

Þar komst hann í liðið þegar Trent Green meiddist. Ævintýrið hélt áfram og hann kom Rams í tvo SuperBowl-leiki á þremur árum. Annan leikinn vann Rams og Warner var kosinn besti leikmaðurinn.

Hann lenti svo í miklum meiðslum. Var eitt ár hjá Giants og fór svo til Arizona til að sitja á bekknum. Með þrautseigju tókst honum að vinna sér sæti í liðinu og stýra síðan Cardinals alla leið í SuperBowl í fyrsta skipti í sögu félagsins.

Lék hann alveg eins og engill á síðustu leiktíð og bíða menn spenntir eftir að sjá hvort Warner geti leikið þann ótrúlega leik eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×