Fótbolti

Ferguson: Ég ber virðingu fyrir Arsene Wenger

Nordic Photos/Getty Images

Sir Alex Ferguson stjóri Manchester United og kollegi hans Arsene Wenger hjá Arsenal voru litlir vinir á tíunda áratugnum en hafa nú lært að bera virðingu hvor fyrir öðrum.

Ferguson hafði þannig ekkert nema hrósyrði að segja um Wenger á blaðamannafundi fyrir síðara einvígi liða þeirra í Meistaradeildinni í kvöld.

"Ég get aðeins dáðst að þeirri staðreynd að Wenger hefur alltaf haldið í sínar hugmyndir sem knattspyrnustjóri. Lið hans reyna alltaf að spila fótbolta og hann trúir á unga leikmenn. Svona hefur þetta alltaf verið hjá Manchester United líka. Það er ekki hægt annað en að bera virðingu fyrir þessu og það geri ég," sagði Ferguson.

Hann hlakkar mikið til leiksins á Emirates í kvöld. "Þetta verður frábær leikur tveggja sterkra liða. Hver veit nema þetta fari alla leið í vítakeppni," sagði Ferguson.

United vann fyrri leikinn á heimavelli sínum 1-0 og nægir því jafntefli í kvöld til að tryggja sér farseðilinn í úrslitaleikinn í Róm þar sem liðið myndi mæta annað hvort Chelsea eða Barcelona.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×