Lífið

Vesturport á leið til Kólumbíu

Hamskiptin til Kólumbíu Hamskipti Vesturports verður opnunarsýning einnar stærstu leikhúshátíðar heims sem fram fer í Bógóta í Kólumbíu. 
Fréttablaðið/Hörður
Hamskiptin til Kólumbíu Hamskipti Vesturports verður opnunarsýning einnar stærstu leikhúshátíðar heims sem fram fer í Bógóta í Kólumbíu. Fréttablaðið/Hörður

Leikhópurinn Vesturport verður með opnunarsýningu einnar stærstu leiklistahátíðar heims, Festival Iberoamericano, sem hefst í Kólumbíu í mars á næsta ári. Hamskiptin eftir Franz Kafka urðu fyrir valinu en tuttugu manna hópur frá Íslandi mun fara til Bógóta og taka þátt í uppfærslunni.

Aðstandendur hátíðarinnar höfðu einnig falast eftir því að hópurinn myndi setja upp og sýna Rómeó og Júlíu en það var ekki hægt vegna anna leikara í þeirri sýningu. Bæði Björn Hlynur Haraldsson og Ingvar E. Sigurðsson voru til að mynda bókaðir í frumsýningu Þjóðleikhússins á sama tíma.

„Skipuleggjendurnir komu til Suður-Karólínu þegar við Nína Dögg vorum að sýna Don John. Þar komu þeir auga á nafn Vesturports í sýningarskránni, könnuðustu vel við nafnið og vildu fá okkur á þessa hátíð," segir Gísli Örn þegar Fréttablaðið truflaði hann í tökum á kvikmyndinni Órói sem nú fara fram.

Gísla þykir þetta ákaflega spennandi verkefni, að fara til Kólumbíu og setja þar upp leiksýningu þótt orðspor landsins hafi verið plagað af mannránum, eiturlyfjasölu og hálfgerðu stríðsástandi í fjölmiðlum. Vesturport getur þó huggað sig við þá staðreynd að borgaryfirvöld í Bógóta hafa tekið til hendinni og borgin er nú talin vera öruggari en bæði Caracas og Ríó de Janeiró.

„Mér skilst að Bógóta sé undirlögð af hátíðinni á þessum tíma, allt verði stopp og íbúarnir taki þátt í þessu af fullum krafti, þetta ætti því að vera mikið stuð."- fgg










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.