Enski boltinn

Knattspyrnumenn eru ekki í tengslum við raunveruleikann

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Barton nýbúinn að slátra Xabi Alonso.
Barton nýbúinn að slátra Xabi Alonso.

Vandræðagemsinn Joey Barton hjá Newcastle segir að lífsstíll atvinnuknattspyrnumanna sé svo yfirgengilegur að þeir séu ekki í neinum tengslum við raunveruleikann.

Barton hefur sjálfur ekki beint alltaf verið jarðbundinn og honum hefur meðal annars verið stungið í fangelsi. Hann segir aftur á móti að fangelsisvistin hafi breytt viðhorfi hans til lífsins.

„Margir knattspyrnumenn eru svo gjörsamlega úr tengslum við raunveruleikann að það er ekki fyndið. Ég var vissulega þannig sjálfur á sínum tíma. Ég fékk aftur á móti að blæða fyrir hegðun mína og það hefur ýtt mér frá þessum lífsstíl," sagði Barton

Hann segir að hinar himinháu upphæðir sem leikmenn fá fyrir að spila knattspyrnu einangri leikmenn frá hinu venjulega lífi sem fólk lifir.

„Leikmenn keyra um á flottum bílum og skipta um bíla eins sokka. Þeir eru með heimskuleg demantsúr og eyða peningum eins og það sé að fara úr tísku og það í miðri kreppu þar sem fólk á vart fyrir mat. Þannig á ekki að haga sér," sagði hinn frelsaði Barton.

Sjálfur hefur Barton stungið logandi sígarettu í auga liðsfélaga, slegið stuðningsmann, kýlt liðsfélaga sinn og lúskrað svo rækilega á manni á djamminu að hann var dæmdur í sex mánaða fangelsi.

„Þetta er það sem fólk veit um. Ég komst líka upp með ýmislegt," sagði Barton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×