Enski boltinn

Aftur vann United 5-0

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dimitar Berbatov fagnar marki sínu með Darren Fletcher í kvöld.
Dimitar Berbatov fagnar marki sínu með Darren Fletcher í kvöld. Nordic Photos / Getty Images

Manchester United vann 5-0 sigur á Wigan og það í annað skiptið á tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni.

Með sigrinum náði United að minnka forystu Chelsea á toppi deildarinnar í tvö stig. United er nú með 43 stig eftir 20 leiki.

Sigur United var öruggur. Wayne Rooney var óheppinn að skora aðeins eitt mark í kvöld en hann var búinn að skjóta í stöng þegar hann skoraði fyrsta mark United eftir fyrirgjöf Rafael á 28. mínútu.

Michael Carrick skoraði svo annað mark United fjórum mínútum eftir mark Rooney.

Rafael skoraði svo sjálfur þriðja markið áður en flautað var til leikhlés með góðu skoti.

Antonio Valencia lagði upp fjórða mark United fyrir Dimitar Berbatov á 50. mínútu og skoraði svo síðasta mark leiksins og þar með ársins í ensku úrvalsdeildinni stundarfjórðungi fyrir leikslok.

Wigan er í sextánda sæti deildarinnar með nítján stig, einu stigi frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×