Helga Margrét Þorsteinsdóttir hefur 115 stiga forystu í sjöþraut eftir fyrri keppnisdag á Evrópumóti unglinga 19 ára og yngri sem fram fer í Serbíu. Hún hefur hlotið 3.551 stig eftir fjórar greinar.
Það eru nákvæmlega jafnmörg stig og hún fékk þegar hún sló Íslandsmetið á dögunum og mjög nálægt því að ná lágmarkinu fyrir heimsmeistaramót fullorðinna. Hún á því möguleika á að ná lágmarkinu á morgun.
Dafne Schippers frá Hollandi er önnur með 3.436 stig og Lea Sprunger frá Sviss þriðja með 3.409 stig.