Viðskipti erlent

Ómögulegt að selja FIH bankann við núverandi aðstæður

Stjórn FIH bankans hefur í fyrsta sinn viðurkennt opinberlega að ekki hafi reynst mögulegt að selja bankann. JP Morgan reyndi hvað hann gat til að selja FIH í nóvember s.l. en án árangurs.

Eins og kunnugt er af fréttum í dag hefur FIH gripið til þess ráðs að reka um 100 af starfsmönnum sínum eða fimmta hvern starfsmann bankans. Jafnframt verður nokkrum deildum lokað, þar á meðal hlutabréfadeild bankans. Reiknað er með að bankinn geti sparað 180-200 milljónir danskra kr. í ár með þessum hætti eða um 4 milljarða kr..

Málið hefur vakið mikla athygi í dönskum fjölmiðlum í dag en FIH bankinn er nú í eigu íslenska ríkisins. Fram kemur í tilkynningu frá FIH að hinir íslensku eigendur bankans hafi reynt síðan í október að selja bankann.

Í umfjöllun á visir.is um málið í vetur kom fram að Seðlabanki Íslands veitti Kaupþingi, fyrrum eigenda FIH, 500 milljóna evra neyðarlán korteri fyrir hrun Kaupþings í haust. Lán þetta, vel yfir 70 milljarðar kr., var með allsherjarveði í FIH.

JP Morgan setti 40 milljarða kr. verðmiða á FIH en samt vildi enginn kaupa. Það var einkum vegna þess að FIH þarf á endurfjármögnun upp á vel yfir 10 milljarða danskra kr. að halda á þessu ári eða yfir 200 milljarða kr.. Spurningin sem vaknar er hvort Seðlabanki Íslands þurfi að koma þar að máli svo FIH fari ekki í þrot.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×