Handbolti

Einar: Okkur var kippt í kjallarann strax í fyrsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Daníel

Einar Jónsson, þjálfari Fram var ekki ánægður með leik sinna kvenna í lokaúrslitunum á móti Stjörnunni. Fram tapaði öllum þremur leikjunum og ógnaði aldrei Stjörnuliðinu að neinu ráði.

„Þetta er annað árið sem við erum í keppni um Íslandsmeistaratitilinn og ég var að vonast eftir því að leikmennirnir væru með blóð á tönnunum síðan í fyrra og myndu taka þetta í ár. Þetta eru gríðarleg vonbrigði og við þurfum að taka vel til í hausnum á okkur," sagði Einar.

„Mínir leikmenn komu mjög vel undirbúnir til leiks og þær vissu alveg hvert þeirra hlutverk væri og hvað þær áttu að gera. Aulamistök og einbeitingarleysi kostar okkur bara þess lélegu leiki því miður fyrir handboltaáhugamenn," segir Einar.

„Í heildina séð er það ágætis árangur að komast alla leið í úrslitin. Við lentum í öðru sæti í fyrra og maður vill stefna hærra. Við lentum í erfiðleikum á tímabilinu en komum aftur upp og spiluðum fína leiki á móti Haukum," segir Einar en Fram vann deildarmeistara Hauka 2-0 í undanúrslitunum.

„Mér fannst vera tröppugangur í þessu en okkur var kippt í kjallarann strax í fyrsta leik á móti Stjörnunni og við náðum ekki að rífa okkur upp úr því. Það var alveg sama hvað við reyndum, hvort sem ég væri að stappa stálinu í stelpurnar eða hvort þær sjálfar væru að stappa stálinu í hvora aðra. Það dugði ekki," sagði Einar og bætti við:

„Ég er verulega ósáttur með annað sætið því mér finnst við hafa lið til þess að klára þetta," sagði Einar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×