Didier Reynders fjármálaráðherra Belgíu mun leggja til á morgun að stofnaður verði sjóður sem tryggi innistæður á reikningum Kaupþings í Luxemborg.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reynders en greint er frá henni á Reuters fréttaveitunni.
Sjóðurinn yrði fjármagnaður með fé frá stjórnvöldum í bæði Belgíu og Luxemborg auk þess að hópur arabískra fjárfesta myndi einnig leggja fé af mörkum. Þessir fjárfestar hafa átt í samningaviðræðum um kaup á Kaupþingi í Luxemborg undanfarnar vikur.
Samkæmt talsmanni Reynders yrði um að ræða að allar innistæður yrðu strax tryggðar upp að 20.000 evrum á hvern innistæðureikning. Þegar kæmi fram í apríl myndi tryggingin ná til heildarupphæðinnar á hverjum reikningi.
Framlag Belgíu til þessa sjóðs mun nema 100 milljónum evra eða tæplega 17 milljörðum kr..
Fram kemur í frétt Reuters að Luc Frieden fjármálaráðherra Luxemborgar sé samþykkur þessum áformum.
Reynders mun leggja fram formlega tillögu um sjóðinn á ríkisstjórnarfundi sem haldinn verður á morgun, þriðjudag. Eftir það er líklegt að samningaviðræður Belga, Luxemborgara og hinna arabísku fjárfesta um kaupin á Kaupþingi fari aftur í gang.