Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair segir að verkfallið hafi áhrif á sjötta hundrað farþega Icelandair þar sem aflýsa þurfti ferðum til og frá München, Berlín og Frankfurt. Farþegar hafi fengið senda nýja ferðaáætlun og muni komast á áfangastað, ýmist samdægurs eða næsta dag.

Flugvél Play sem átti að fara í loftið klukkan sex í morgun og lenda í Brandenburgar-flugvellinum í Berlín var aflýst. Því urðu farþegar í Berlín sem áttu að koma heim með sömu vél strandaglópar þar í borg.
Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi Play, segir að verkfallið muni ekki hafa frekari áhrif á flugfélagið í bili. Um var að ræða einu flugferð Play til Þýskalands í dag og næstu ferðir ekki áætlaðar fyrr en á fimmtudag og föstudag.

Samkvæmt frétt BBC um málið hafa farþegar í Frankfurt, München, Berlín og um allt Þýskaland verið beðnir um að mæta ekki á flugvellina. Yfirvöld vilja með þessu koma í veg fyrir umferðarteppu til og frá flugvöllum.
Þá segir einnig að stéttarfélagið Verdi standi fyrir verkfallinu sem sett var á vegna þess að samningar hafa ekki náðst þrátt fyrir ítrekaðar viðræður. Talsmaður Verdi sagði að þau gerðu sér grein fyrir áhrifunum sem þetta hefði á farþega en að aðgerðirnar væru nauðsynlegar til að ná fram samningum og kalla eftir betra launatilboði.
Verdi fer fram á átta prósent launahækkun, þrjá aukafrídaga og einn til viðbótar fyrir meðlimi verkalýðsfélagsins. Þá segir einnig í fréttinni að þrátt fyrir að laun flugvallarstarfsmanna séu yfir lágmarkslaunum séu frídagar færri. Það eigi sérstaklega við um starfsmenn sem sinna öryggisgæslu.
Óvænt verkföll hafa víðtæk áhrif
Þá segir að BDLS sem er samningsaðili hinum megin við borðið hafi sagt að áhrif verkfallsins væru mest á fyrirtæki sem ekki eru við samningsborðið. Þau kalla eftir því að þýsk stjórnvöld banni fyrirvaralaus verkföll þar sem flugumferð sé nauðsynleg viðskiptaumhverfi Þýskalands sem ekki megi verða fyrir áhrifum af launadeilum.
Þýskir fjölmiðlar segja að þúsundum flugferða verði aflýst í dag sem muni hafa áhrif á fleiri en fimm hundruð þúsund farþega.
Um er að ræða svokallað „warning strike“ sem er samkvæmt frétt BBC algeng aðgerð til að beita þrýstingi þegar kemur að launaviðræðum í Þýskalandi. Um er að ræða bæði samningaviðræður starfsmanna í öryggismálum flugvalla og svo umfangsmeiri deilur sem snúa að opinberum starfmönnum. Viðræður munu halda áfram fyrir flugvallarstarfsmenn þann 26. mars.
Í frétt BBC segja samningsaðilar að ekki verði hægt að mæta kröfum Verdi sem séu einfaldlega óraunhæfar vegna fjárhagsstöðu hins opinbera. Samningsaðilar vinnuveitenda flugvallarstarfsmanna hafa tekið í sama streng og því ekki komið með neitt móttilboð. Þau segja fjármagn til þess ekki fyrir hendi.