Lífið

Óhemjuvinsæll hryllingur

Paranormal Activity Hryllingsmyndin Paranormal Activity verður frumsýnd hérlendis á morgun.
Paranormal Activity Hryllingsmyndin Paranormal Activity verður frumsýnd hérlendis á morgun.

Hryllingsmyndin Paranormal Activity, sem verður frumsýnd hérlendis á morgun, hefur slegið rækilega í gegn í Bandaríkjunum og Kanada síðan hún var frumsýnd fyrir nokkrum vikum. Hún hefur þénað rúmlega 85 milljónir dala, eða um 10,6 milljarða króna, sem er ótrúlegur árangur miðað við að hún kostaði innan við tvær milljónir króna í framleiðslu og var aðeins tekin upp á einni viku.

Engin sjálfstætt framleidd mynd í sögunni hefur þénað jafnmikið miðað við framleiðslukostnað. Hefur hún þar með slegið út The Blair Witch Project sem rakaði inn tæpum 250 milljónum dala í miðasölunni víðs vegar um heiminn, eða rúmum þrjátíu milljörðum króna. Hún kostaði aftur á móti 7,5 milljónir króna í framleiðslu.

Paranormal Activity var tekin upp á gömlu heimili leikstjórans og handritshöfundarins Oren Peli í San Diego í Kaliforníu. Peli, sem er fyrrverandi tölvuleikjahönnuður, eyddi heilu ári í að innrétta húsið sérstaklega fyrir tökurnar. Til að auka hræðsluáhrifin var notast við handhelda upptökuvél, rétt eins og gert var í The Blair Witch Project með góðum árangri.

Myndin er tekin upp í heimildarmyndastíl og fjallar um ungt par, Katie og Micah. Katie heldur því fram að yfirnáttúruleg vera hafi ásótt sig alla sína ævi, þar á meðal á heimili þeirra. Micah kaupir sér þá upptökuvél í von um að festa óskapnaðinn á filmu.

Viðtökurnar við myndinni hafa eins og áður sagði verið rosalegar og hafa margir gengið út af henni af hræðslu. Eins og gefur að skilja er framhaldsmynd nú þegar í undirbúningi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.