Viðskipti erlent

Lloyds bankinn fer í stærsta hlutafjárútboð Bretlands

Lloyds Banking Group í Bretlandi tilkynnti um stærsta hlutafjárútboð sögunnar en með því eru langþreyttir eigendur bankans beðnir um að setja 13,5 milljarða punda, eða 2.750 milljarða kr., af nýju fé í bankann.

Í frétt í blaðinu Guardian um málið segir að fjárfestum sé boðið að kaupa 1,34 nýja hluti í bankanum fyrir hvern 1 hlut sem þeir eiga fyrir. Þeir muni fá 59,5% afsátt af hinum nýju hlutum m.v. verð þeirra á markaði við lokun síðdegis í gær.

Hluthafar munu greiða atkvæði um útboðið á fimmtudag og fari svo að þeir samþykkit það hafa þeir fram í desember til að ákveða hvort þeir nýti sér forkaupsrétt sinn eða ekki. Þar sem bankinn er að 43% í eigu breska ríkisins munu 5,8 milljarða punda af útboðinu lenda á herðum breskra skattgreiðenda.

Lloyds þarf á þessu fjármagni að halda til að rétta af stöðu sína í kjölfar yfirtöku bankans á HBOS bankanum.

Stærsta hlutafjárútboðið í sögu Bretlands fram að þessu var þegar HSBC bankinn fór í 12,5 milljarða punda útboð í mars á þessu ári. Það útboð átti þátt í því að FTSE vísitalan í London féll í sitt lægst gildi á sex ára tímabili fram að útboðinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×