Innlent

Niðurskurður meirihlutans mun reynast kostnaðarsamur til framtíðar

Drifa Snædal, fulltrúi VG í velferðarráði Reykjavíkurborgar.
Drifa Snædal, fulltrúi VG í velferðarráði Reykjavíkurborgar.
Engin merki eru um að aðrir geti náð hagræðingu sem borgin getur ekki án þess að það komi einhvers staðar niður. Þetta kemur fram í bókun Drífu Snædal, fulltrúa VG í velferðarráði Reykjavíkurborgar, um fjárhagsáætlun fyrir velferðarsvið. Hún telur að niðurskurður meirihlutans muni reynast kostnaðarsamur til framtíðar.

„Fulltrúi Vinstri grænna í Velferðarráði sér ekki hagræðinguna af því að útvista þjónustu á vegum borgarinnar enda liggur ekki fyrir hvernig hún hefur áhrif á þá sem þjónustuna þiggur, starfsfólk viðkomandi stofnunar og skattgreiðendur," segir í bókun Drífu.

Ef meirihlutinn treystir sér ekki til að reka stofnanir á sem hagkvæmastan hátt með góðu þjónustustigi og virðingu fyrir starfsfólki ber hann að afsala sér völdum, að mati Drífu.

„Úthlutun ramma ber lítil merki um nýjar áherslur í forgangsröðun. Skorið er niður með tiltölulega flötum hætti, þó krafan sé meiri á svið sem varða skipulag og framkvæmdir en hin sem varða menntun og velferð," segir í bókuninni.

Drífa hefði viljað sjá skýrari áherslumun. „Ljóst er að útgjöld á Velferðarsviði þurfa að aukast á árinu 2010 á meðan hægt væri að draga enn frekar saman á sviði framkvæmda eða skipulags. Niðurskurður á kostnað barna eða velferðar mun reynast kostnaðarsamur til framtíðar og er með öllu óásættanlegur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×