Liðin þrjú sem voru kærð í gær á Formúlu 1 mótinu í Melbourne í Ástralíu náðu bestu tímum á tveimur æfingum í nótt. Nico Rosberg á Williams var með besta tíma í báðum æfingum.
Á fyrri æfingunni var Kazuku Nakajima á Williams aðeins 0.049 sekúndum á eftir Rosberg, en á síðari æfingunni kom Rubens Barrichello honum næstur. Hann var 0.1 sekúndu á eftir.
Athygli vakti að Ferrari menn voru aðeins í 10-11 sæti og McLaren menn í 17-18 sæti, en heimsmeistarinn Lewis Hamilton varð átjándi.
Þrír efstu bílarnir á æfingum voru allir teknir fyrir af FIA í gær eftir kærur frá keppinautum, en voru allir dæmdir löglegir af dómnefnd.
