Innlent

Bankasýsla ríkisins stofnuð

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Steingrímur vill stofna Bankasýslu ríkisins til að fara með málefni fjármálastofnana í ríkiseigu.
Steingrímur vill stofna Bankasýslu ríkisins til að fara með málefni fjármálastofnana í ríkiseigu. Mynd/Valli

Bankasýsla ríkisins verður að veruleika samþykki alþingi nýtt frumvarp Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra.

Bankasýslan mun hafa það hlutverk að fara með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, leggja þeim til fé fyrir hönd ríkisins á grundvelli heimildar í fjárlögum og stuðla að uppbyggingu innlends fjármálamarkaðar.

Jafnframt er á verkefnaskrá sýslunnar að standa að vali í bankaráð og stjórnir fjármálafyrirtækja og undirbúa sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Með yfirstjórn Bankasýslunnar fara þrír stjórnarmenn sem fjármálaráðherra skipar til fimm ára, en að þeim tíma loknum stendur til að leggja niður sýsluna. Forstjóri sýslunnar er ráðinn af stjórn hennar.

Bankasýslan er stofnuð til þess að auka trúverðugleika eigendaákvarðana ríkisins í málefnum bankanna svo daglegur rekstur þeirra sé hafinn yfir vafa um pólitísk afskipti. Þannig megi ná fram eðlilegum viðskiptaháttum og virkri samkeppni á fjármálamarkaði þrátt fyrir að umrædd fjármálafyrirtæki séu í sömu eigu, að því er kemur fram í athugasemdum við frumvarpið.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur gagnrýnt þessi áform og segir þau ganga út á að halda bönkunum í ríkiseigu lengur en æskilegt er.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra gefur lítið fyrir þessar áhyggjur: „Er þetta ekki tiltölulega staðlað og hefðbundið svar frá íhaldsmanni?" segir Steingrímur í samtali við fréttastofu.

„Það er ekki markmið ríkisins að eiga og reka banka til lengri tíma."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×